Reglur um styrkveitingar
Reglur Úrvinnslusjóðs um meðferð styrkumsókna í tengslum við lögboðna fræðsluskyldu, samþykktar af stjórn sjóðsins þann 14. apríl 2023
Inngangur
Úrvinnslusjóður annast umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds sem greitt er af framleiðendum og innflytjendum tiltekinna vara. Tekjur af gjaldinu skulu standa undir skyldum framlengdrar framleiðandaábyrgðar.
Í 3. gr. l. nr. 162/2002 er að finna upptalningu um í hvað megi ráðstafa úrvinnslugjaldi. Við ráðstöfun gjalda ber sjóðnum einnig að líta til hlutverk síns varðandi hringrásarhagkerfi, hagræna hvata og töluleg markmið.
Almennt verður talið að styrkveitingar falli ekki undir hlutverk eða heimildir sjóðsins nema þegar styrkur er veittur vegna verkefnis sem falla myndi undir fræðsluskyldu sjóðsins skv. 2. mgr. 24. gr. a í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Tilgangur og markmið
Tilgangur og markmið reglna er að tryggja að styrkveitingar rúmist innan heimilda sjóðsins og að við meðferð umsókna sé gætt hlutleysis og jafnræðis þannig að ákvörðun byggi á málefnalegum grunni. Þá stefna reglurnar einnig að því að unnt verði að ganga úr skugga um að styrkveitingar samræmist og stuðli að því að Úrvinnslusjóður nái settum markmiðum á kostnaðarskilvirkan hátt.
Í upphafi árs samþykkir stjórn hámarksfjárhæð sem úthluta má í formi styrkja. Á sama tíma ákvarðar stjórn áherslur í fræðslu- og kynningamálum með hliðsjón af því hvernig tekist hafi að ná tölulegum markmiðum m.t.t. þess á hvaða sviðum liggur fyrir þörf á fræðslu.
Styrkumsóknir skulu bornar undir stjórn Úrvinnslusjóðs að fenginni umsögn skrifstofu Úrvinnslusjóðs. Í umsögn skal gerð grein fyrir hvort og þá hvernig veiting styrks geti verið liður í að uppfylla fræðsluskyldu sjóðsins eða styðja að öðru leyti við tilgang eða markmið hans. Einnig skal gerð grein fyrir hvernig styrkveiting samræmist þáttum sem litið er til við mat umsóknar.
Nánar tiltekið skal umsókn metinn af skrifstofu Úrvinnslusjóðs eða óháðum þriðja aðila sem valinn er af skrifstofu. Við matið skal litið til þess að hvaða leyti verkefnið samræmist fræðslu- eða upplýsingaskyldu sem Úrvinnslusjóður ber lögum samkvæmt, þannig að:
- verkefnið styðji við stefnu stjórnar um áherslur í fræðslu- og kynningamálum á hverjum tíma;
- verkefnið efli úrgangsforvarnir, s.s. með því að draga úr myndun úrgangs;
- verkefnið stuðli að uppbyggingu hringrásarhagkerfis með vöru eða þjónustu;
- verkefnið stuðli að bættri flokkun úrgangs;
- verkefnið stuðli að aukinni endurvinnslu eða annarri endurnýtingu.
Einnig skal lagt mat á almennt hæfi umsækjanda til að vinna verkefnið. Við það mat skal litið til þess hvort:
- verkefnið sé vel skilgreint þannig að skýrt sé hver séu markmið þess og hvernig þeim verði náð, einnig að markmið séu raunhæf;
- verkefnið byggi á faglegum grunni, tímaáætlun þess sé skýr og rökstudd;
- umsækjendur hafi sýnt fram á hæfni sína og nægilega góða aðstöðu, þ.m.t. fjárhagslega; til þess að vinna fyrirhugað verk. Við mat á fjárhagsstöðu skal bæði litið til fjárhagslegs stöðuleika umsækjanda sem og aðgengi hans að fjármagni sem verja skal til verkefnis;
- til staðar séu hagsmunaárekstrar s.s. í tengslum við aðra styrktaraðila.
Ef styrkur er samþykktur skal ganga frá skriflegum samningi um styrkinn. Í samningi skal að lágmarki gerðar kröfur um:
- að Úrvinnslusjóður geti á hverjum tíma óskað eftir framvinduskýrslu;
- að Úrvinnslusjóður geti óskað eftir að niðurstöður/lokaafurð verði kynnt framkvæmdastjóra og stjórn sjóðsins;
- að styrkur verði ekki greiddur fyrr en heildarfjármögnun hefur verið tryggð með nægilegum hætti;
- að Úrvinnslusjóður geti endurkrafið styrkþega um þegar greiddan styrk ef verkefni er ekki lokið innan tímamarka, nema tafir séu af lögmætum ástæðum.
Heildarfjárhæð til styrkjaúthlutunar er ákveðin árlega af stjórn sjóðsins.