Alþjóðlegi rafrusldagurinn
14. október 2024
Alþjóðlegi rafrusldagurinn er 14. október. Tökum þátt í leitinni að rafrusli og gefum því nýtt líf.
Umfang raftækjaúrgangs: 1,55 milljón vörubílar í röð um miðbaug!
Samkvæmt nýjustu tölum frá Sameinuðu þjóðunum ( Global E-Waste Monitor ) urðu til 62 milljón tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi (e. Waste from Electrical and Electronic Equipment – WEEE) á heimsvísu árið 2022. Þetta magn jafngildir því að 1,55 milljón vörubílum, hlöðnum rafrusli, yrði stillt upp við miðbaug jarðar og næðu allan hringinn. Gert er ráð fyrir að magn rafræns úrgangs fari upp í 82 milljón tonn árið 2030. Samkvæmt opinberum tölum eykst magn raftækjaúrgangs fimmfalt hraðar en endurvinnsluhlutfallið.
Alþjóðadagur raf- og rafeindatækjaúrgangs, Alþjóðlegi rafrusldagurinn (International E-Waste day – IEWD) er haldinn þann 14. október ár hvert til að hjálpa til við að takast á við þetta alþjóðlega vandamál. Viðburðurinn er haldinn að frumkvæði WEEE Forum og meðlima, og miðar að því að varpa ljósi á mikilvægi þess að meðhöndla raftækjaúrgang á ábyrgan hátt eftir formlegum úrvinnsluleiðum. Eins er ætlunin að vekja athygli á þeim lausnum sem tiltækar eru íbúum á mismunandi stöðum og í ólíkum samfélögum. Á síðasta ári tóku 195 fyrirtæki frá 55 löndum þátt í rafrusldeginum með því að skipuleggja viðburði, safna raftækjaúrgangi og með upplýsingagjöf á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.
Alþjóðlegi rafrusldagurinn 2024: Leitum að rafrusli - finnum, endurvinnum og gefum verðmætum nýtt líf!
Í ár er slagorð vitundarvakningarinnar „Leitum að rafrusli – finnum, endurvinnum og gefum verðmætum nýtt líf!“ Áherslan er lögð á biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum, oft án þess að gera sér grein fyrir að þessir hlutir innihalda verðmæt efni sem gætu öðlast nýtt líf. Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu - en hlutirnir sem oftast gleymast í ruslaskúffunni eru lítil rafeindatæki: Gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar.
Í ár er markmiðið að hvetja fólk til að fara í gegnum heimili sín, leita að ónotuðum eða biluðum tækjum og afhenda þau á næstu móttökustöð fyrir slíkan úrgang. Með því geta allir lagt sitt af mörkum til að draga úr mengun, vernda auðlindir jarðar, spara orku og draga úr koltvísýringsmengun.
Hvað get ég gert?
Ef þú ert fulltrúi fyrirtækis, stofnunar, sveitarfélags eða félagasamtaka:- Taktu þátt í vitundarvakningunni 14. október: Öll vitundarvakning tengd raftækjaúrgangi er velkomin. Til dæmis herferðir á samfélagsmiðlum, sjónvarps- og útvarpsherferðir, söfnun raftækjaúrgangs í bæjum eða skólum, eða jafnvel listrænir viðburðir. Skoðaðu myndbandið af starfsemi síðasta árs til að fá innblástur. Það er einnig meira en velkomið að deila efni Úrvinnslusjóðs á samfélagsmiðlum.
- Skráðu þig til leiks: Öllum fyrirtækjum og stofnunum sem vilja vera með er boðið að skrá sig hér og gerast opinberir þátttakendur. Með því öðlast þau sýnileika á vefsíðu Alþjóðlega rafrusldagsins.
- Taktu þátt í samfélagsmiðlasamkeppninni: Deildu mynd af skúffunni sem þú geymir rafruslið þitt í og mynd af staðnum þar sem þú afhendir rafruslið til endurvinnslu. Þá áttu möguleika á að vinna lestarmiða um Evrópu! Nánari upplýsingar eru hér .