Breytingar á úrvinnslugjaldi 1. janúar 2023

Breytingar á álagningu úrvinnslugjalds frá og með 1. janúar 2023. Skatturinn sér um innheimtu úrvinnslugjalds en ekki Úrvinnslusjóður.

28. des. 2022

Breytingar á úrvinnslugjaldi 1. janúar 2023
Breytingar á álagningu úrvinnslugjalds frá og með 1. janúar 2023. Skatturinn sér um innheimtu úrvinnslugjalds en ekki Úrvinnslusjóður.

Vöruflokkurinn Plöntuverndarvörur og sæfivörur hét áður varnarefni. Dæmi um plöntuverndarvörur og sæfivörur eru fúavarnarefni, skordýra- og illgresis-eyðandi efni. Hækkun álagningar á olíuvörur og plöntuverndarvörur og sæfi-vörur er tilkomin vegna aukins kostnaðar við söfnum og úrvinnslu. Hækkun álagningar á umbúðir úr plasti, pappír og pappa hækkar umtalsvert, aðallega vegna sérstakrar söfnunar en einnig vegna áætlunar um aukna söfnun og hækkun kostnaðar við úrvinnslu.

Ný álagning úrvinnslugjalda árið 2023

Umbúðir úr gleri, málmi og timbri
Frá og með 1. mars 2023 verður lagt úrvinnslugjald á umbúðir úr gleri, málmi og timbri. Úrvinnslugjaldið á að standa undir kostnaði við söfnun, flutning og ráðstöfun þessara vara þegar þær verða að úrgangi.
Við innflutning vara í umbúðum sem bera úrvinnslugjald gefa innflytjendur upp þyngd umbúða í vörusendingu til tollafgreiðslu. Ef staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða vöru liggja ekki fyrir er heimilt að greiða úrvinnslugjald í samræmi við reiknireglur, sem er líkan byggt á upplýsingum og forsendum um samsetningu umbúða og umbúðaefni fyrir vörur í hinum ýmsu tollskrár-númerum. Magn og skipting umbúða eftir efnum reiknast fyrir gefið tollnúmer sem margfeldi þyngdar vöru og umbúðaprósentu viðkomandi umbúðaefnis. Tillit er tekið til þess að sambærilegar vörur geta verið í mismunandi umbúðum og því þarf að gera ráð fyrir mismunandi tegund söluumbúða. Sem dæmi má nefna að matarolíu má flytja inn í glerflöskum, plastflöskum eða málm- umbúðum á einu og sama tollskrárnúmeri. Innflytjandi þarf því að gefa upp aðalsöluumbúðir svo hægt sé að meta umbúðamagn samkvæmt líkaninu, þ.e. í dæminu hér að framan hvort matarolían sé í gler-, málm- eða plastumbúðum. Þegar álagning fer fram fær innflytjandi uppgefið eitt gjald fyrir álagningu úrvinnslugjalds á umbúðir.

Ökutæki
Frá og með áramótum verður lagt úrvinnslugjald á ökutæki við nýskráningu að upphæð 15.000 kr á hvert ökutæki óháð orkugjafa. Eldra úrvinnslugjald sem greitt hefur verið tvisvar sinnum á ári af ökutækjum með bifreiðagjaldi breytir um heiti og heitir nú skilagjald. Upphæð skilagjaldsins verður óbreytt og er greitt 900 kr. tvisvar á ári í 15 ár. Þetta gjald greiðir eigandi ökutækisins hverju sinni og lögskráður eigandi ökutækisins fær greitt skilagjald að upphæð 30.000 kr. þegar ökutækið er afskráð og sent til úrvinnslu. Útgreitt skilagjald hækkar úr 20.000 kr. í 30.000 kr. þann 1. janúar 2023.
Þannig er gerður greinarmunur á annars vegar úrvinnslugjaldi sem er innheimt við nýskráningu ökutækja sem nær til ábyrgðar framleiðenda á úrvinnslu ökutækis og hins vegar á skilagjaldi á skráningarskyld ökutæki sem innheimt er reglulega af skráðum eigendum ökutækja, sem eiga rétt á að fá greitt skilagjald fyrir ökutæki þegar þeim er skilað á móttökustöð. Úrvinnslugjaldi á fram-leiðendur er ætlað að standa undir móttöku og endurnýtingu ökutækisins en skilagjaldinu er ætlað að mynda hvata fyrir eigendur ökutækja að koma þeim í rétta meðhöndlun þegar líftíma ökutækis er lokið.

Drifrafhlöður
Frá og með áramótum er lagt úrvinnslugjald á fleiri iðnaðarrafhlöður en iðnaðarrafhlöður sem eru blýsýrurafgeymar. Þar undir falla drifrafhlöður sem notaðar eru til að knýja áfram rafknúin farartæki sem eru skráningarskyld og einnig þau sem ekki eru skráningarskyld. Á þessar rafhlöður er lagt á 20 kr./kg en á minni faratæki er lagt á 500 kr. á hvert tæki sem fer eftir tollflokkun í tollskrá.

Plastvörur
Frá og með áramótum verður lagt úrvinnslugjald 27 kr./kg á blautþurrkur, tóbaksvörur með filterum, tóbaksfiltera, blöðrur og fleiri tilteknar einnota plastvörur.
Um er að ræða plastvörur sem falla undir framlengda framleiðendaábyrgð. Úrvinnslugjaldinu er beint að þeim plastvörum sem fundist hafa á ströndum en mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er 80–85% plast og þar af eru einnota plastvörur 50% og hlutir tengdir veiðum 27%.
Framleiðendaábyrgð á plastvörur felur í sér að framleiðendur skuli standa straum meðal annars af kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun vara sem þeir framleiða, þegar þeim hefur verið hent, kostnaði við að hreinsa upp plastvörur þegar þær eru orðnar að rusli á víðavangi, fræðslu, úrgangsforvörnum ofl.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ásamt veiðarfæragerðum annast, samkvæmt samningi við Úrvinnslusjóð, úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra sem innihalda plast. Um leið er nýtt heimild til undanþágu á úrvinnslugjaldi á veiðarfærum sem innihalda plast.

Sérstök söfnun
Flokkun og sérstök söfnun úrgangs eru lykilatriði í að stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs og draga úr magni úrgangs sem fer í endanlega förgun. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Af þessum úrgangsflokkum eru umbúðarúrgangur (úr pappír, pappa, gleri, málmi og plasti) og spilliefni úrgangsflokkar sem stafa frá vöruflokkum sem lagt er úrvinnslugjald á. Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðila í þéttbýli.
Heimilt að uppfylla skyldu til sérstakrar söfnunar á gleri og málmum og textíl með söfnun í grenndargáma. Sérstök söfnun á spilliefnum skal fara fram í nærumhverfi íbúa.

Hækkun á úrvinnslugjaldi á umbúðir úr pappa, pappír og gleri má að stórum hluta rekja til aukins kostnaðar vegna sérstakrar söfnunar þeirra. Úrvinnslusjóður greiðir sveitarfélögum þennan kostnað, samkvæmt gjaldskrá Úrvinnslusjóðs, sem byggir á tilteknum forsendum. Um er að ræða söfnun á umbúðum úr pappír, pappa og plasti við íbúðarhús og söfnun á umbúðum úr pappa, plasti, gleri og málmum úr grenndargámum. Í þeim tilvikum þar sem safnað er blöndu af úrvinnslugjaldsskyldum úrgangi og úrgangi sem ekki ber úrvinnslugjald, er greiðslu til sveitarfélaga skipt upp eftir hlutfalli samkvæmt úrtakskönnun, t.d. í pappatunnunni greiðir Úrvinnslusjóður fyrir söfnun pappírs- og pappaumbúða en ekki fyrir dagblöð og aðrar tegundir pappírs.

Á móti hækkun álagðra úrvinnslugjalda lækkar kostnaður íbúa vegna sérstakrar söfnunar á pappa, pappír og plasti við íbúðarhús þar sem Úrvinnslusjóður mun greiða sveitarfélögunum fyrir það sem safnast af umbúðum úr þessum efnum. Forsenda þess að ná árangri í söfnun, endurvinnslu og endurnýtingu er að úrgangur sé vel flokkaður. Úrvinnslusjóður óskar eftir samstarfi við landsmenn við að ná árangri í aukinni endurvinnslu.