Endurvinnsla á perum - breytt framkvæmd
Fram til þessa hafa notaðar perur sem safnast hér á landi verið muldar. Mulningurinn hefur farið fram undir sogi þannig að kvikasilfur verður eftir í síum. Efnið sem eftir situr (mulningurinn) hefur farið á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi, sem byggingarefni. Þessi ráðstöfun hefur verið með leyfi Umhverfisstofnunar og telst önnur endurnýting (other material recovery) á úrgangi.
Úrvinnslusjóður hefur farið þess á leit við þjónustuaðila sína að þeir leiti leiða til að koma perum í endurvinnslu (recycling) sem felur í sér að hráefni í þeim eru notuð aftur. Hringrás hefur nú fundið ráðstöfunaraðila sem tekur við heilum perum til endurvinnslu og einnig mulningi sem hefur safnast upp. Því er fyrirséð að fljótlega á þessu ári verði farið að senda heilar perur utan til endurvinnslu. Með þessu eru markmið reglugerðar 1061/2018 uppfyllt varðandi þennan vöruflokk og nýting hráefna batnar til muna frá því sem verið hefur.
Í þessu myndbandi er meðferð pera hjá nýja ráðstöfunaraðilanum lýst:
https://www.youtube.com/watch?v=n7ajua0m01Q"
Til að mæta auknum kostnaði við þessa ráðstöfun hefur stjórn Úrvinnslusjóðs ákveðið að hækka endurgjald fyrir endurvinnslu á vöruflokknum úr 93 kr./kg í 265 kr./kg.
Endurnýting á urðunarstað verður áfram leyfð til 1. apríl 2025 og óbreytt einingaverð endurgjalds, 95 kr/kg.