Fundur um greiðslur til sveitarfélaga 4.11. - Upptaka
Úrvinnslusjóður hélt fund í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga þann 4. nóvember nk. kl. 14:00-15:00. Upptöku af fundinum má nálgast í fréttinni.
Greiðslur vegna söfnunar á víðavangi og fyrirkomulag greiðslna fyrir sérstaka söfnun umbúðaúrgangs á fyrri hluta árs 2025.
Sandra Brá Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs og Gunnlaug Einarsdóttir verkefnastjóri funduðu með tæknimönnum og fjármálastjórum sveitarfélaga. Á fundinum var fjallað um:
1. Greiðslur til sveitarfélaga fyrir hreinsun á tilteknum einnota plastvörum á víðavangi fyrir árin 2023 og 2024, en þetta fyrirkomulag var einnig kynnt sveitarfélögunum bréflega þann 26. september sl. Um er að ræða heildargreiðslur uppá 50.3 mkr. samtals fyrir hvort ár til sveitarfélaganna. Farið verður yfir forsendur greiðslna, meðal annars kröfur um skil á gögnum.
2. Tímabundnar breytingar á fyrirkomulagi á greiðslum fyrir sérstaka söfnun á umbúðaúrgangi á fyrri hluta árs 2025. Úrvinnslusjóður mun um n.k. áramót taka í notkun nýja gagnagátt fyrir skil á upplýsingum frá þjónustuaðilum. Þess er vænst að þegar gáttin verður komin í full not muni komast meiri stöðugleiki á greiðslur til sveitarfélaga, enda byggja greiðslurnar á að gögn frá þjónustuaðilum séu bæði rétt og tímanleg. Til að auka fyrirsjáanleika í greiðslum mun Úrvinnslusjóður, fyrstu 6 mánuði næsta árs, greiða sveitarfélögunum mánaðarlega fjárhæð sem byggir á meðaltalsgreiðslum undangenginna mánaða. Heildargreiðslur vegna sérstakrar söfnunar 2025 verða síðan gerðar upp í árslok þegar endanleg gögn liggja fyrir. Með þessu er komið til móts við óskir um fyrirsjáanleika og reglubundnar greiðslur, jafnframt því að komið í veg fyrir að ófyrirséðir hnökrar sem upp geta komið við innleiðingu nýrrar gagnagáttar tefji greiðslurnar. Það er von Úrvinnslusjóðs að þetta tímabundna fyrirkomulag auðveldi gerð rekstraráætlana sveitarfélaganna.