Áætlun um greiðslur til sveitarfélaga vegna sérstakrar söfnunar á umbúðaúrgangi 2025

23. des. 2024

Sveitarfélögum hefur borist áætlun um greiðslur fyrstu sex mánuði næsta árs.

Úrvinnslusjóður hefur tekið upp tímabundnar breytingar á fyrirkomulagi á greiðslum fyrir sérstaka söfnun á umbúðaúrgangi á fyrri hluta árs 2025. Þann 1. janúar 2025 verður tekin í notkun ný vefgátt fyrir skil á gögn um söfnun og ráðstöfun úrgangs frá þjónustuaðilum. Þetta á við um gögn fyrir úrgang sem verður til vegna umbúða og þeirra vara sem bera úrvinnslugjald. Þess er vænst að þegar vefgáttin verður komin í full not muni komast meiri stöðugleiki á greiðslur til sveitarfélaga, enda byggja greiðslurnar á að gögn frá þjónustuaðilum séu rétt og tímanleg. Til að auka fyrirsjáanleika í greiðslum mun Úrvinnslusjóður, fyrstu sex mánuði næsta árs, greiða sveitarfélögunum mánaðarlega fjárhæð sem byggir á meðaltalsgreiðslum á tímabilinu 1. október 2023 – 31. september 2024. Fyrstu greiðslur verða greiddar í febrúar 2025 fyrir áætlaða söfnun í janúar 2025. Í þeim sveitarfélögum þar sem samsöfnun var á þessu tilgreinda 12 mánaða tímabili og sérsöfnun hefur síðan verið tekin upp, hefur verið reynt að áætla mánaðarlegar greiðslur. Ekki var hægt að áætla greiðslur til átta sveitarfélaga, þar sem ekki eru fyrirliggjandi gögn um sérstaka söfnun á þessu 12 mánaða tímabili.

Um mitt næsta ár verður þetta fyrirkomulag endurskoðað. Þá verður vefgáttin að fullu innleidd og allir þjónustuaðilar búnir að tengjast henni. Heildargreiðslur vegna sérstakrar söfnunar 2025 verða gerðar upp í árslok þegar endanleg gögn um sérstaka söfnun á umbúðaúrgangi liggja fyrir. Með þessu er komið til móts við óskir um fyrirsjáanleika og reglubundnar greiðslur, jafnframt því að komið í veg fyrir að ófyrirséðir hnökrar sem upp geta komið við innleiðingu nýrrar vefgáttar tefji greiðslurnar.