Nokkur orð um drykkjarfernur
Í ljósi umfjöllunar um endurvinnslu drykkjarferna vill Úrvinnslusjóður koma eftirfarandi á framfæri.
Plast-, pappírs- og pappaumbúðum sem bera úrvinnslugjald er safnað hér á landi af aðilum, hér eftir kallaðir þjónustuaðilar, sem hafa samið við Úrvinnslusjóð um að þeir annist úrvinnslu úrgangs s.s. söfnun, flokkun og ráðstöfun hans.
Þjónustuaðilar skuldbinda sig til að fara að lögum og reglum sem gilda um starfsemina og að þeir skuli stefna að úrvinnsla samræmist forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs.
Þjónustuaðilar flokka úrganginn áfram til að tryggja að sem mest af honum sé hæft til endurvinnslu. Að því loknu ráðstafa þeir úrgangi til aðila sem þeir hafa samið við þ.e. svokallaðra ráðstöfunaraðila, sem svo annað hvort endurvinna sjálfir úrgang eða koma honum áfram til endurvinnslu. Þjónustuaðilar mega ekki ráðstafa úrgangi til annarra ráðstöfunaraðila en þeirra sem uppfylla skilyrði Úrvinnslusjóðs og hafa verið samþykktir af sjóðnum. Þjónustuaðilar og ráðstöfunaraðilar sem meðhöndla sléttan pappa frá Íslandi eru allir staðsettir innan Evrópska efnahagssvæðisins og eru með starfsleyfi og undir eftirliti yfirvalda í því landi þar sem þeir eru staðsettir.
Drykkjarfernum hefur ýmist verið safnað sérstaklega s.s. gert hefur verið á Akureyri eða sem hluta af pappa og pappír. Einnig hefur einn þjónustuaðili flokkað þær frá öðrum pappa . Drykkjarfernur eru hluti af vöruflokknum sléttur pappi, sem er undirvöruflokkur vöruflokksins bylgjupappi og sléttur pappi. Þjónustuaðilar upplýsa Úrvinnslusjóð um hversu miklu magni var safnað, hvar efni var safnað s.s. úr heimatunnum, grenndargámi eða safnstöð, hversu miklu magni hefur verið ráðstafað og þá hvert og í hvaða tilgangi og nota til þess skilagrein, sem er form útbúið af Úrvinnslusjóði. Þegar skilagrein er fyllt út vegna bylgjupappa og slétts pappa, þ.e. flokksins sem drykkjarfernur falla í, þá er ekki sérstaklega gerð grein fyrir hve mikið safnaðst eða var ráðstafað af drykkjarfernum heldur falla þær inn í tölur fyrir sléttan pappa.
Skilagrein fyrir bylgjupappa og sléttan pappa býður ekki upp á aðra ráðstöfunarleið en að efni verði sent til endurvinnslu. Rekstarstjórar vöruflokka hjá Úrvinnslusjóði fara yfir og samþykkja eða synja skilagreinum. Hafi í skilagrein verið gerð grein fyrir ráðstöfun gefur þjónustuaðili út reikning byggðan á samþykktri skilagrein. Reikningi skulu fylgja gögn sem staðfesta ráðstöfun úrgangs.
Þegar úrgangur hefur verið sendur milli landa eins og í tilfelli slétts pappa er sýnt fram á ráðstöfun með framvísun staðlaðs skjals, viðauka VII við evrópureglugerð nr. 1013/2006 um flutning úrgangs. Viðauki VII hefur að geyma upplýsingar um hver er tegund úrgangs, hver sendir úrganginn, hver er ráðstöfunaraðilinn, hvert er móttökuland og hverjir eru flutningsaðilar. Einnig kemur fram í hvaða endurnýtingaraðferð úrgangurinn er að fara. Viðauki VII er staðfestur af fulltrúa þess aðila sem tekur við efninu til endurvinnslu þ.e. ráðstöfunaraðila.
Úrvinnslusjóður greiðir ekki fyrir endurvinnslu slétts pappa nema hafa í höndum staðfestan viðauka VII þar sem tilgreint er að slétti pappinn verði sendur til endurvinnslu.
Það hefur aldrei komið til að Úrvinnslusjóður hafi greitt fyrir að fernum eða öðrum sléttum pappa verði ráðstafað til brennslu í formi orkunýtingar. Það er hins vegar svo að í vinnsluferli þá er það þannig bæði í tilviki pappa og plasts að ekki er allt efni endurvinnanlegt. Slétti pappinn fernur, drykkjarmál, kexpakkar o.fl. geta innihaldið plast, málma, lím, óhreinindi o.fl. Eftir því sem sjóðurinn best veit og hefur ekki fengið staðfestingu um annað fer sléttur pappi frá Íslandi í endurvinnsluferli sem endurvinnur trefjar án frekari meðhöndlunar. Í því ferli er hrati fleytt ofanaf pappírskvoðunni sem hefur verið leyst upp. Hratið inniheldur það sem ekki leysist upp sem pappírstrefjar og er endurnýtt með brennslu og orkunýtingu. Einnig þarf að hafa í huga að úrgangur frá Íslandi er hjá ráðstöfunaraðilum blandaður samskonar úrgangi frá öðrum löndum og því getur verið mjög erfitt og nánast útilokað að mæla nákvæmlega árangur af endurvinnslu á íslensku efni einu sér eða hvað hefur unnist úr ákveðinni tegund efnis.
Í umræðu hefur verið bent á að erfitt geti verið að endurvinna samsettar umbúðir eins og drykkjarfernur og að mögulega sé hægt að endurvinna stærri hluta þeirra þ.e. ná út meiri pappatrefjum, áli og plasti en gert er í þeirri vinnslu sem þær fara í í dag. Einnig hefur verið ýjað að því að fernur hafi ekki ratað í endurvinnslu. Úrvinnslusjóður hefur í framhaldi af því kallað eftir frekari gögnum um afdrif drykkjarferna. Enn sem komið er hefur ekkert það komið fram sem sýnir að drykkjarfernur hafi ekki réttilega farið í endurvinnsluferli. Einnig er sjóðurinn með til skoðunar skilgreiningar Evrópusambandsins á því hvar í ferli úrgangur telst vera komin í endurvinnsluferli en slíkt getur haft áhrif í þessu sambandi. Úrvinnslusjóður hefur leitað eftir aðstoð óháðs sérfróðs aðila um að taka út núverandi ferli og að skoða hvaða aðrir kostir eru í boði við endurvinnslu drykkjarferna. Málið er því enn til skoðunar. Auk þess mun Úrvinnslusjóður greina ferla vegna annarra vöruflokka og endurmeta verklag sitt m.t.t. þess hvernig hægt verði að auka gagnsæi og eftirlit með ferlum. Er það von Úrvinnslusjóðs að þessi skref verði ekki einungis til að bæta starfsemi sjóðsins heldur muni það einnig verða skref í að endurvinna aftur það traust sem sjóðurinn kann að hafa tapað