Yfirlýsing stjórnar um úrvinnslu plastumbúða
Að undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um úrvinnslu plastumbúða. Stjórn Úrvinnslusjóðs fagnar umfjölluninni, því þrátt fyrir að umhverfis- og mengunarmál hafi fengið töluvert vægi í almennri umræðu síðustu ár hefur úrvinnsla úrgangs, þ.e. endurvinnsla, endurnýting (þ.m.t. orkuvinnsla) og förgun, fengið tiltölulega litla athygli. Úrvinnslan er afar brýnt samfélagsverkefni og mikilvægur liður í að vel sé farið með takmarkaðar auðlindir jarðar.
Innan Úrvinnslusjóðs taka atvinnulíf og opinberir aðilar höndum saman og er sjóðurinn fyrir vikið óvenjuleg ríkisstofnun. Þetta er gert í von um að samstillt átak skili betri árangri. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að úrvinnslu úrgangs sem fellur undir framleiðendaábyrgð, þ. á m. plastumbúða. Innflytjendur og framleiðendur sjá sjóðnum fyrir tekjum enda er þeim samkvæmt lögum ætlað að bera ábyrgð á að úrgangur af tilteknum vörum fái æskilega meðhöndlun að notkunartíma loknum. Tekjunum er varið í að tryggja eftir fremsta megni að markmiðum um endurvinnslu verði náð. Fyrirkomulag sjóðsins tryggir að sjónarmið hins opinbera og einkafyrirtækja hafi vægi.
Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að Ísland nái markmiðum um endurvinnslu plastumbúðaúrgangs. Til að ná markmiðunum fær sjóðurinn tekjur af álagningu úrvinnslugjalds en tekjurnar eru nýttar til að stuðla að úrvinnslu. Á hverju ári frá 2011 hefur verið stefnt að því að 22,5% af plastumbúðum sem settar eru á markað skili sér til endurvinnslu. Meðaltal áranna 2011–2019 er 28,2%. Miðað er við plastumbúðir með úrvinnslugjaldi, heyrúlluplast og skilagjaldsumbúðir. Nýverið gerði Úrvinnslusjóður breytingar á endurgjaldi fyrir blandaðar plastumbúðir frá heimilum og greiðir nú hærra verð fyrir endurvinnslu þeirra en fyrir endurnýtingu með orkuvinnslu. Rétt er að taka fram að breytingarnar hafa verið í farvatninu frá því snemma á þessu ári. Vonir standa til þess að tilhögunin auki verulega endurvinnslu plastumbúða.
Hluta plastumbúða er ekki hægt að endurvinna, t.d. vegna hönnunar umbúðanna eða þar sem þær eru of óhreinar. Því miður er eini kosturinn að senda þennan úrgang í orkuvinnslu eða urðun. Forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, gerir ráð fyrir að það sé betra að senda plast til orkuvinnslu en að því sé fargað, t.d. að það sé urðað með heimilisúrgangi.
Undanfarin ár hafa miklar sviptingar átt sér stað varðandi endurvinnslu plastúrgangs um allan heim. Stór móttökuríki úrgangs, eins og Kína, lokuðu fyrir móttökuna með stuttum fyrirvara. Sú aðgerð skapaði alþjóðlegt vandamál, m.a. í Evrópu þar sem ekki voru til staðar verksmiðjur sem taka við því efni sem áður fór til Kína. Á Íslandi hefur söfnun blandaðra plastumbúða frá heimilum aukist á sama tíma. Stöðugt er unnið að útfærslu nýrra leiða til að ná betri árangri í endurvinnslu plastumbúða.
Umfjöllun fjölmiðla hafa einhverjir e.t.v. túlkað á þann veg að óþarft sé að eyða orku í flokkun, þrif og skil á plasti til móttökuaðila. Stjórn Úrvinnslusjóðs vill nota tækifærið og koma því á framfæri að slíkt framtak er ekki aðeins forsenda þess að vel takist til við úrvinnslu plastúrgangs heldur einnig þáttur í því að vel takist í umhverfis- og loftslagsmálum til framtíðar.