Spurningar og svör um rafhlöður
Hvers vegna á að skila rafhlöðum?
Í rafhlöðum eru spilliefni sem eru hættuleg bæði heilsu okkar og náttúrunni komist þau í snertingu við umhverfið. Það er því mikilvægt að engar rafhlöður endi í heimilissorpinu heldur sé komið til úrvinnslu til viðurkenndra aðila sem hafa þekkingu til að farga eða eyða rafhlöðunum, og þar með lágmarka umhverfis- og heilsuspjöll af völdum rafhlaðna.
Hvar get ég séð hvaða söfnunarstöð er næst mínu heimili?
Finndu þá söfnunarstöð sem er næst þér!
Kostar eitthvað að skila rafhlöðum til úrvinnslu?
Nei
Hvert á að skila rafhlöðum til úrvinnslu?
Söfnunarstöðvar sveitarfélaga, söluaðilar rafhlaðna og bensínstöðvar taka einnig á móti rafhlöðum og hægt er að setja þær í endurvinnslutunnur fyrir flokkað heimilissorp.
Hversu miklu magni af rafhlöðum er skilað til úrvinnslu á Íslandi árlega?
Því miður er allt of litlu magni af rafhlöðum skilað árlega. Af þeim 176,9 tonnum rafhlaðna sem flutt voru inn til landsins á árinu 2010 var aðeins rúmlega 48 tonnum skilað til úrvinnslu. Þetta eru ekki nema 28% af öllum seldum rafhlöðum hér á landi. Þetta þýðir að rúm 128,9 tonn af rafhlöðum, 72%, hafa farið beint í ruslið og því verið urðuð með öðru sorpi.
Hvað verður um rafhlöðurnar þegar þeim hefur verið skilað?
Frá söluaðilum rafhlaðna og bensínstöðvum fara þær ásamt því sem safnast í söfnunarstöð viðkomandi sveitarfélags til fagaðila til flokkunar eftir innihaldi og möguleikum til endurnýtingar. Öllum rafhlöðum er fargað eða eytt á viðurkenndan hátt hjá aðilum sem hafa starfsleyfi til slíkrar meðhöndlunar. Sem dæmi um endurnýtingu eru rafhlöður með spilliefnum brenndar við háan hita hjá viðurkenndum eyðingaraðila. Hitinn sem myndast ið brennslu á ónýtum rafhlöðum frá Íslandi er notaður bæði til að framleiða rafmagn og hita vatn sem er notað til húshitunar.
Hversu stórt hlutfall af þeim rafhlöðum sem er skilað hér á landi inniheldur spilliefni?
Rafhlöður með spilliefnum voru 7% af heildarmagni þeirra rafhlaðna sem skilað var árið 2010. Þetta eru kvikasilfursrafhlöður, nikkel-kadmíumrafhlöður og litíum-rafhlöður.
Hvað er gert við afganginn, þ.e. brúnkolsrafhlöðurnar sem innihalda ekki spilliefni?
Brúnkolsrafhlöðurnar eru settar í tunnur, merktar og urðaðar á urðunarstað Sorpu fyrir sértækan úrgang.
Hvaða áhrif hefur það á okkar eigin heilsu og afkomenda okkar ef rafhlöðum er ekki skilað til úrvinnslu heldur hent beint í ruslið?
Rafhlöður eru spilliefni og geta verið skaðlegar heilsu og umhverfi. Ef hættulegu efnin sem fyrirfinnast í sumum rafhlöðum sleppa út í náttúruna getur það haft alvarlegar afleiðingar. Það sem vitað er um þungmálmana
blý,
kvikasilfur og
kadmíum er að þeir eru allir eitraðir og hafa áhrif á umhverfið og þar með heilbrigði dýra og manna. Þessir þungmálmar eiga það einnig sameiginlegt að safnast upp í líkamanum. Í stað þess að skiljast út úr líkamanum í formi þvags, hægða eða svita, verða þeir eftir í líkama manna og dýra og safnast upp.
Kvikasilfur getur valdið skaða á miðtaugakerfi og nýrum. Það safnast fyrir í vöðvum og taugakerfi.
Kadmíum getur valdið nýrnaskaða og vansköpun á beinagrind. Blý safnast upp í lifur, nýrum og milta. Aukið magn af blýi í heila barna hefur í för með sér minnkandi getu til að læra og náttblindu. Krónísk blýeitrun veldur blóðleysi og truflunum í taugakerfi.
Hversu margar ólíkar gerðir rafhlaðna eru til á markaðnum?
Það eru til þúsundir ólíkra gerða rafhlaðna en hægt er að flokka þær með mismunandi hætti.
Flokkaðar eftir notkun eru þessar rafhlöður algengastar:
Rafhlöður sem notaðar eru í heimilis- og leiktæki eins og fjarstýringar, vasaljós, myndavélar, rafknúin leikföng o.fl. Þessar rafhlöður geta bæði verið einnota og endurhlaðanlegar. Hnapparafhlöður sem notaðar eru t.d. í heyrnartæki, úr og myndavélar. Endurhlaðanlegar rafhlöður sem t.d. eru notaðar í iðnaði (borvélar o.þ.h.).
Séu rafhlöður flokkaðar eftir innihaldi líta flokkarnir þannig út:
Brúnkolsrafhlöður: Hættulausar rafhlöður, innihalda ekki spilliefni og eru yfirleitt einnota.
Kvikasilfursrafhlöður: Mikið af hnapparafhlöðum er t.d. með kvikasilfri.
Nikkel-kadmíumrafhlöður: Endurhlaðanlegar rafhlöður, t.d. rafhlöður í borvélum og slíkum tækjum.
Litíum-rafhlöður: Endurhlaðanlegar rafhlöður, t.d. rafhlöður í myndavélar og björgunarljós, einnig er litíum notað í nokkrar gerðir hnapparafhlaðna.
Loks má svo einfaldlega skipta rafhlöðum upp í einnota og endurhlaðanlegar rafhlöður.
Hvað innihalda rafhlöðurnar? Hver eru hættulegustu efnin?
Rafhlöður geta innihaldið mörg ólík efni til þess að búa til rafmagn, t.d. mangandíoxíð, járn, sink, kol, klór, tin, nikkel, kopar, salmíak og brennisteinssýru (sem er það sama og rafhlöðusýra). Alkalírafhlöður og brúnkolsrafhlöður innihalda fyrst og fremst sink og járn. Í flestum hnapparafhlöðum er kvikasilfur, sem er mjög eitraður þungmálmur. Einnig eru til rafhlöður sem innihalda kadmíum og blý, sem eru hættulegir þungmálmar. Í kadmíumrafhlöðum er ennfremur nikkel. Valkostur við hinar hættulegu nikkelkadmíumrafhlöður eru nikkel-málmhýdridrafhlöður, sem eru alveg lausar við efni sem eru skaðleg umhverfinu. Sumar vistvænar rafhlöður innihalda einnig litíum.